Færsluflokkur: Vinir og fjölskylda

Ágúst liðinn...

og farið að hausta.  Allt gott að frétta af okkur eins og venjulega.  Við Kolfinna Sjöfn erum búnar að vera duglegar að tína rifsber og gera sultu úr þeim, þ.e. þeim sem hún nær ekki að borða Joyful, svo nú er nóg til af sultu til að borða með ostum - namminamm.  Svo byrjaði skvísan að labba nú í lok ágústmánaðar og er voða gaman að sjá hana staulast um á litlu spóaleggjunum sínum voða montna.  Orðaforðinn er alltaf að aukast hjá henni.  Nú sér hún krakka út um allt og hneggjar á þá og einnig er voða sport að segja hæ í síma.  Reyndar eru allar fjarstýringar símar hjá henni þessa dagana Tounge  Svo er skvísan byrjuð á öðru sundnámskeiði og finnst okkur báðum rosa gaman á því.  Nóg af bulli í bili - september framundan með réttum og skemmtilegheitum.  Bless í bili, Margrét Harpa, karlinn og krakkinn Kissing


Stúlkan ársgömul!!!

Ójá, 21. júlí varð Kolfinna Sjöfn ársgömul og var að sjálfsögðu haldið upp á það með pompi og prakt Wizard   Ómar grillaði pylsur í gríð og erg og svo voru kökur í desert, fullt af skemmtilegum gestum og frábær dagur í alla staði.  Fullt af myndum frá afmælisdeginum í júlíalbúminu.  Við klipptum dömuna í fyrsta sinn á afmælisdaginn hennar, þ.e. Ómar hélt höfðinu og ég klippti, og finnst okkur hún hafa elst heilmikið við það - orðin allt í einu svo mikill krakki Tounge   Krakkinn er búin að vera aðeins í traktornum að "hjálpa" pabba sínum að vinna og finnst það ógurlega gaman, svo er líka svo gott að fá sér smá lúr þar Sleeping   Annars þroskast stúlkan og dafnar bara vel, var orðin 7600g og 73,5 cm í ársskoðuninni.  Tvær tönnslur eru komnar í efrigóm, til viðbótar við hinar tvær í neðri, svo nú getur hún gníst tönnum, öllum til mikillar ánægju Undecided   Skvísan blaðrar alveg heilmikið og er nú búin að bæta "nei" og "fisk" í orðaforðann sinn ásamt "vííí..." sem þýðir gönguvagninn hennar/bíll/allt sem er á hjólum.  Hún er orðin voða dugleg að ganga með en vantar aðeins kjarkinn til að sleppa sér.  Henni finnst voða gaman að dansa og dilla sér er hún heyrir lög í útvarpinu og svo er hún aðeins farin að syngja með, ógurlega krúttulegt, kallar þverflautuna mína "lala" og finnst voða gaman að glamra á gítarinn með mér.  Við fengum góða heimsókn frá danaveldi í lok mánaðarins og hitti Kolfinna Sjöfn jafnaldra sinn, Ívar Hrafn, í fyrsta sinn, voða gaman!  Lítið fleira að frétta af okkur í bili - sumarið líður hratt svo kvöldin eru orðin kertavæn og kósí.  Haldið endilega áfram að kvitta fyrir "komuna" á síðuna.  Kveðja, Margrét Harpa og co.

Júní

Nú er litla daman komin á ferð og flug.  Mesta sportið er að standa, standa og standa og svo líka að ganga meðfram öllu sem hægt er að ganga meðfram.  Hún er þó enn smá klaufi að setjast og finnst gríðarlegt öryggi í að maður komi við höndina á henni er hún mundar sig við að setjast - þá er alveg hægt að láta sig detta á bossann.  Kofinna Sjöfn fór í 11 mánaða mælingu og reyndist vera orðin 7500 g. og 72,5 cm. - há og grönn eins og foreldrarnir Cool  Hún heldur áfram að bæta við orðaforðann sinn.  Loksins sagði hún "pabbi" og svo kann hún líka að segja "sjáðu", "takk", "mjá" og að ógleymdu "datt" - endar dettur ansi margt þessa dagana að hennar mati. Tounge  Tvær tönnslur birtust í neðri góm um miðjan júní og var mamman svo heppin að finna þá fyrstu.  Annars er júní búinn að vera mjög viðburðarríkur.  Móðirin á heimilinu varð þrítug í mánuðinum og faðirinn 35 ára, þó svo hann haldi því fram að hann sé 25 eða yngri Whistling  Svo létu Benna Laufey og Ólafur Þór pússa sig saman um Jónsmessuna og var gríðarlegt húllumhæ í kringum það.  Loksins lét góða veðrið sjá sig og erum við mæðgur búnar að vera ansi duglegar að dúlla okkur á sólpallinum - það er jú líka hægt að standa upp við og ganga meðfram garðhúsgögnunum svo það skiptir ekki máli hvort maður sé úti eða inni Wink  Endilega verið dugleg að kvitta er þið kíkið hér inn - það er svo gaman að sjá hverjir eru að skoða þetta bull hjá manni.  Kveðja, Lambhagalufsurnar Kissing


Maí - rok á Rangárvöllunum.

Nú er maí liðinn með sauðburði, kulda, roki og aftur roki.  Vonandi verður sumarið ljúfara en vorið!  Kolfinna Sjöfn er nú komin á ferðina og er ansi dugleg að kíkja í stofuskápana.  Henni líst voðalega vel á lömbin og reynir mest að éta þau eins og reyndar flest annað sem hún nær tökum á.  Ég held að þetta séu fyrstu merki um að hún muni lifa á hráfæði í framtíðinni....Wink  Smá spaug!  Hún er einnig að rembast við að standa upp en fæturnir flækjast enn svolítið fyrir henni, hún kemst upp á hnén en er stopp þar.  Skvísan segir mamma í gríð og erg og svo er hún líka búin að læra að segja muuu... og meee... enda eru dýrin stórmerkileg sem hún sér gjarnan út um stofugluggann.  Nú vonum við bara að veðrið verði skaplegra nú í júní svo við getum farið að fara meira út í göngutúra og í sund.  Endilega kvittið fyrir innlitið!  Kveðja, Margrét Harpa 


Gleðilegt sumar!

Gleðilegt sumar öllsömul!  Allt fínt að frétta af okkur að vanda.  Litla skvísan babblar út í eitt og er eflaust að segja eitthvað stórmerkilegt þó svo ekki skiljist orð af því.  Hún kann orðið að klappa saman lófunum og veit að ís er voðalega góður Tounge   Skriðæfingarnar bera lítinn árangur (enda ekki stundaðar af kappi) en sú stutta kemst það sem hún vill á mallanum.  Við fórum eina helgi í sumarbústað í Reykjaskóg og eins og sjá má á myndunum var heiti potturinn notaður út í ystu æsar.  Við foreldrarnir urðum verri af pottasýki og er aldrei að vita nema við fáum okkur einn í sumar Cool   Ómar er á fullu í vorverkunum þessa dagana, jarðvinnsla og lífræn og ólífræn áburðardreifing.  Svo hefst sauðburður um miðjan mánuðinn, þ.e. ef hrútarnir hafa staðið sig um jólin InLove   Frábær tími framundan og bara að vona að veðrið verði gott.  Nóg af bulli í bili - alltaf heitt á könnunni ef þið eruð á ferðinni.  Kveðja, Margrét Harpa og co.

Gleðilega páska

Nú er skvísan að upplifa sína fyrstu páska og virðist vera sem súkkulaðihænan hafi verpt þónokkrum páskaeggjum fyrir litlu dömuna - þrátt fyrir að hún sé nú ekki farin að smakka á súkkulaði, foreldrarnir neyðast því víst til að hjálpa henni með eggin Wink  Allt fínt að frétta héðan úr Lambhaga.  Kolfinna Sjöfn fór í átta mánaða skoðun í lok mars og var þá orðin 68 cm. löng og 6800 g. Grét nú svolítið á hjúkkuna þegar hún var sprautuð en var fljót að harka það af sér.  Hún er nú farin að mjaka sér af stað, afturábak og er ótrúlegt hvað hún nær að komast um gólfið á þann hátt.  Pabbi hennar var eitthvað að reyna að setja hana upp á hnén og ,,kenna" henni að skríða en það gengur eitthvað brösulega.  Hún minnir helst á belju (fyrirgefðu Ingveldur - kú) að stíga upp úr doða (segir pabbinn) - spyrnir sér áfram og lendir bara á nefinu. Tounge  Hún er aðeins farin að fara í fjósið og kíkja á búpeninginn og finnst voða sport að fá að sitja í vagninum og horfa á Týru hlaupa í kringum vagninn.  Nú er vorið á næsta leiti og þá verða göngutúrarnir eflaust fleiri.  Verið endilega áfram dugleg að kvitta.  Kveðja frá Lambhagafjölskyldunni.


Febrúar liðinn

Mikið líður tíminn hratt - febrúar liðinn og örugglega komið sumar áður en maður veit af!   Benna amma/langamma lést núna í febrúar og blessuð sé minning hennar.  Annars er alllt fínt að frétta af okkur að vanda.  Kolfinna Sjöfn fór að fá graut á kvöldin, tæplega 7 mánaða, þó svo hún væri ekkert að biðja um það.  Júgrið er nefnilega að fara til Glasgow með saumaklúbbnum sínum 15.-18. mars og þá þarf skvísan víst að vera farin að samþykkja einhverja fæðu svo hún svelti ekki. Wink  Kofinna Sjöfn varð veik í fyrsta sinn nú í febrúar, hiti, hósti og kvef, en hún náði því sko úr sér - hreystikvendi í uppsiglingu, vonandi!  Liverpool er búið að vera mjög sigursælt í febrúar og vann m.a. Barcelona 1-2 á útivelli, bara ef það skildi hafa farið fram hjá ykkur.  Kolfinna Sjöfn virðist vera gríðarlega ánægð með gengi Liverpool síðastliðinn mánuð og mun að sjálfsögðu fylgjast áfram spennt með, ásamt föður sínum.  Takk fyrir kveðjurnar í gestabókinni, alltaf gaman að sjá hverjir kíkja hérna inn.  Knús og kossar, Margrét Harpa og co.


Janúarmyndir

Sæl og blessuð öll sömul!  Nú er skvísan okkar orðin rúmlega 6 mánaða og er ótrúlegt hvað tíminn líður hratt - á gervihnattaöld Wink  Nýjustu mælingar á  henni sýndu 5900 g og 65 cm og er það bara allt samkvæmt áætlun - allt svo skipulagt, eða þannig.  Hún er farin að velta sér af baki yfir á maga og þykir ógurlega gaman að standa í fæturnar.  Við erum búnar að fara í fjóra sundtíma og ég veit ekki hvor okkar skemmtir sér betur.  Hún er voða dugleg að fara í kaf og líður greinilega mjög vel í vatninu.  Annars er lítið að frétta - við mæðgur erum að flytja tímabundið heim að Egilsstöðum því ,,gamla" settið er að fara á Kanarí og ætlum við að vera ráðskonur heima á meðan, það verður örugglega bara notalegt.  Endilega verið áfram dugleg að kvitta í gestabókina.  Kveðja, Margrét Harpa, Ómar og Kolfinna Sjöfn       


Gleðilegt nýtt ár!

Jæja, nú eru jól og áramót liðin og allt er farið að ganga sinn vanagang.  Við höfðum það bara rosa fínt um hátíðirnar eins og sjá má á nýjum myndum í desemberalbúminu.  Kolfinna Sjöfn er að byrja í ungbarnasundi á morgun á Selfossi og verður gaman að sjá hvernig hún bregst við því.  Hún er alla vegana búin að prófa baðið hér heima og þótti bara gaman að svamla um í því með mér, buslaði og skríkti allan tímann sem hún var í því, svo ég býst við að hún muni skemmta sér vel í sundinu.  Ég er búin að breyta stillingu á gestabókinni og athugasemdum þannig að nú er miklu auðveldara að skrá færslur þar - endilega prufið!  Kveðja, Margrét Harpa (og Ómar og Kolfinna Sjöfn)

Gleðileg jól

IMG_1053

Gleðileg jól allir saman!


« Fyrri síða | Næsta síða »

Höfundur

Margrét Harpa Guðsteinsdóttir
Margrét Harpa Guðsteinsdóttir
Nóv. 2024
S M Þ M F F L
          1 2
3 4 5 6 7 8 9
10 11 12 13 14 15 16
17 18 19 20 21 22 23
24 25 26 27 28 29 30

Heimsóknir

Flettingar

  • Í dag (21.11.): 0
  • Sl. sólarhring:
  • Sl. viku:
  • Frá upphafi: 0

Annað

  • Innlit í dag: 0
  • Innlit sl. viku:
  • Gestir í dag: 0
  • IP-tölur í dag: 0

Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband