Er líða fer að jólum...

...er ekki seinna vænna en að setja eitthvað hér inn.  Búin að setja inn fimm ný albúm, júní - október 2009.  Við brölluðum margt skemmtilegt í sumar.  Fórum m.a. í sumarbústað til Bennu Laufeyjar og co í Húsafelli, smá ferðalag í Borgarfjörðinn, ættarmót, grillveislur og margt fleira skemmtilegt.  Hápunktur júnímánaðar var sko að hitta Skoppu og Lúsí á 17. júní hátíðarhöldunum á Hellu, ótrúlega gaman að hitta þær svona í eigin persónu.  Svo varð daman þriggja ár í júlí og var að sjálfsögðu haldið upp á það með pomp og prakt.  Ágúst leið á ógnarhraða og september tók við með sínu réttarstússi.  Svo er búið að standa í sláturgerð og öðrum haustverkum núna í október og finnst Kolfinnu Sjöfn sko ekki leiðinlegt að drullumallast í ekta mat ;o)  Skvísan flutti af Bangsadeild yfir á Fíladeild eftir sumarfrí og líkar henni það vel.  Við förum einu sinni í viku í íþróttaskólann og finnst henni það yfirleitt mjög mikið sport.  Við fórum saman í myndatöku núna í nóvember og er við komum inn á ljósmyndastofuna tilkynnti Kolfinna Sjöfn ljósmyndaranum að hún ætlaði að kaupa mynd af sér - það væru bara til myndir af mömmu heima - veit ekki alveg hvernig henni datt það í hugKissing Nenni ekki að bulla meira í bili.  Kveðja, Margrét Harpa


Sumar og sól

Nú fer að styttast í að Kolfinna Sjöfn verði þriggja ára og bíður hún þess með óþreygju.  Hún telur niður með afmælum og er runan eitthvað á þessa leið:  "Fyrst á mamma afmæli, svo á pabbi afmæli, svo á Dagrún afmæli, svo á Hafdís afmæli og svo ég"Wizard  Miklu betra að gera þetta svona heldur en að nota vikur og daga Joyful  Annars gengur lífið sitt vanagang hér á bæ, sauðburður búinn, áburður kominn á tún og styttist í slátt, allt eins og það á að vera.  Kolfinna Sjöfn er orðin ansi skýrmælt og notar R hljóðið mjög skýrt.   Hún söng til dæmis hástöfum fyrir mig og aðra í "svínabúðinni" á Selfossi litalagið og sagði þá að sjálfsögðu: "...brrúnn, brrreikur brrranani, applesína talandi..." - óþarfi að sparrrra errrið þegar maðurrrr kanna að segja það.  Henni finnst mjög gaman að syngja og kann ógrynni af textum og lögum.  Dýrin í Hálsaskógi eru í miklu uppáhaldi og þykist hún vera Lilli fillumús (klifurmús) er hún klifrar í trjánum hjá ömmu Sjöfn.  Hér er smá myndband af henni í þessum leik:

Meira seinna, kveðja, Margrét Harpa og co.


Gleðilegt nýtt ár 2009!

og takk fyrir allt það góða á liðnu ári.  Í lok nóvember lést Tómas afi/langafi á Stokkseyri, blessuð sé minning hans.

Desember var skemmtilegur mánuður hjá okkur að vanda.  Við jóluðumst fullt, föndruðum, bökuðum, þrifum og höfðum það huggulegt þess á milli.  Kolfinna Sjöfn sá nokkra jólasveina og leist henni ekkert á þá nema í fjarlægð - þeir voru svona fjarska fallegir að hennar mati.  Þó fannst henni nú ógurlegt sport að fá pakka frá þeim í skóinn og yfirleitt leyndist eitthvað fallegt í þessum pökkum.  Einn sveinkinn gaf henni þó skítuga kartöflu í skóinn og reyndi hún sko bara að gera gott úr því, hélt því fram að hún væri frá afa Gutta, ógurlega gaman hehe...En þegar ég bendi henni á að það væri Grýlulykt af skítugu kartöflunni þá hugsaði hún sig aðeins um, tók svo straujið inn í eldhús að ruslaskápnum og kallaði á mig að opna fyrir sig skápinn.  Svo henti hún kartöflunni í ruslið og þóttist ekki kannast við neitt þegar Ómar spurði hana um skógjöfina, málið leyst!!!  Benna Laufey eignaðist stelpu 22. desember og finnst Kolfinnu Sjöfn frænka sín alveg pííínulítil og heldur uppi litla fingri til að sýna hvað hún er lítil.  Þær eiga nú samt öruggleg eftir að leika sér eitthvað saman í framtíðinni.  Kolfinna Sjöfn fékk mikið af fallegum jólagjöfum og þökkum við kærlega fyrir okkur!  Við fórum á tvö jólaböll, eitt í Þjórsárveri og annað á Hellu, og var mjög gaman að dansa í kringum jólatréð.  Áramótin voru líka skemmtileg.  Frábært veður til að brenna og skjóta upp flugeldum og góður matur snæddur í góðra vina hópi.  Nóg af bulli í bili - endilega kvittið ef þið kíkið hér inn.  Kveðja, Margrét Harpa og co. 


Jæja, á maður ekki að fara að skrifa eitthvað sniðugt?

Gleðilegt vor, sumar, haust og vetur!  Það er orðið ansi langt síðan ég hef skrifað eitthvað hér og var ég jafnvel að hugsa um að bíða með næstu færslu þangað til eftir þorra 2009, eitt ár til eða frá - skiptir það einhverju máli Whistling   Það er annars allt fínt að frétta af okkur og töluvert búið að gerast síðan síðast.  Kolfinna Sjöfn byrjaði í leikskólanum Heklukoti á Hellu í júní og er hún á Bangsadeild.  Henni finnst mjög gaman í leikskólanum.  Sumarið var æðislegt, gott veður og því pallurinn mikið notaður.  Við fjárfestum í heitum potti í sumar og má sjá nokkrar pottapartýsmyndir í sumaralbúmunum.  Í lok júlí fórum við í smá ferðalag með ömmu Sjöfn og Hafdísi.  Við heimsóttum heiðurshjónin Danna og Ernu sem hafa sumarbúsetu á Vattanesi austur á fjörðum og fórum við svo í framhaldi af því til Eyglóar og Braga á Sauðárkrók.  Keyrðum svo Kjöl heim með viðkomu á Hveravöllum.  Þar sá Kolfinna Sjöfn ógrynni af tröllskessum (eða trölladans eins og hún segir) og voru hverirnir pottarnir þeirra þar sem var verið að malla graut handa tröllabörnunum Tounge   Skvísan varð tveggja ára í júlí og var að sjálfsögðu haldið upp á það með pompi og pragt og fengu allir sem vildu píngó, þ.e. sleikjó.  Við fórum í þrennar réttir í haust, Reykjaréttir á Skeiðum, Reyðarvatnsréttir á Rangárvöllum og Landréttir í Áfangagili.  Það mætti halda að við værum þingmenn miðað við allar réttirnar sem við fórum í, alla vegana sá maður sömu þingmennina í öllum þessum réttum og mætti halda að þetta væri aðalvinnan þeirra í septembermánuði.  Nú erum við að byrja að undirbúa jólin og Kolfinna Sjöfn er sko búin að fatta tilgang Grýlu og jólasveinanna.  Jólasveinarnir búa uppí Heklu og eru að búa til pakka handa henni.  Grýla er svo að sjálfsögðu að búa til graut handa þeim.  Spurning hvort Jón Finnur frændi á Selfossi samþykki að sveinarnir búi í Heklu en ekki í Ingólfsfjalli???  Vonandi samt að það verði nú ekki þrætuepli hjá þeim frændsystkinum Wink   Einnig veitir Kolfinna Sjöfn tunglinu mikla athygli þessa dagana og hún heldur því fram að hún sjái karlinn sem býr þar eins og Stúfur í samnefndri bók.  Ætli ég láti þetta ekki duga í bili.  Kveðja frá okkur öllum, Margréti Hörpu, krakkanum og karlinum.

Nú er frost á Fróni...

og styttist í þorrablót.  Þorrinn ætlar að vera harður í ár, nóg af snjó og mikið frost.  Kolfinna Sjöfn er orðin 18 mánaða og fór í skoðun og sprautu af því tilefni.  Hún er nú 10 kg. þung og 84 cm. löng, há og grönn eins og hún á kyn til Kissing og henni fannst lítið mál að láta sprauta sig, mikið hreystimenni sem vælir ekki út af smástungu Wink Henni finnst voða gaman að láta lesa, syngja og spila fyrir sig og kann nú þegar slatta af lögum, þ.e. kann endingarnar á vísuorðunum.   Uppáhaldslagið hennar um þessar mundir er "Minnkurinn í hænsnakofanum" og er hún orðin voða flink að segja dýrahljóðin í réttri röð eins og þau koma fyrir í viðlaginu þegar maður syngur það fyrir hana.  Ég er byrjuð að vinna hálfan daginn og sér Ómar um skvísuna á meðan, með dyggri aðstoð frá ömmu Sjöfn.  Því miður kemst Kolfinna Sjöfn ekki strax á leikskóla (allt fullt á Hellu) og því er gott að eiga góðar ömmur og afa til að leita til.  Annars er bara allt gott að frétta af okkur.  Nóg af bulli í bili.  Knús, Margrét Harpa


Gleðilegt nýtt ár...

...og takk fyrir þau gömlu.  Takk fyrir öll flottu jólakortin!  Við höfðum það alveg ljómandi gott nú um hátíðarnar - slappað af, etið og drukkið eins og tilheyrir.Tounge   Svo er núna nýja árið gengið í garð og ótrúlegt hvað tíminn líður alltaf hratt.  Loksins kom snjórinn og mér finnst alltaf svo gott hvað hann lýsir upp skammdegið, eitthvað annað en öll þessi rigning í desember.  Ómar er nú reyndar ekki alveg eins hrifinn af snjónum og við mæðgur.  Kolfinna Sjöfn gaf mér þessa fínu snjóþotu í jólagjöf (sem reyndar passar held ég aðeins undir aðra rasskinnina á mérKissing ) og nýtur hún góðs af að nota hana.  Henni finnst snjórinn mjög góður á bragðið og er mikið búin að reyna að ná honum af rúðunum þegar hún stendur inni og það snjóar.  Hún er alltaf að læra nýja hluti eins og vera ber á þessum aldri.  Skvísan fór á tvö jólaböll, á Hellu og í Þjórsárveri, og eftir þau var hún komin með hreyfingarnar á hreint við "Adam átti syni sjö" og "Í skóginum stóð kofi einn".  Svo fékk skvísan fullt af fínum gjöfum í jólagjöf og því er nóg af dóti í herberginu til að leika sér með.  Læt þetta duga í bili.  Kveðja, Margrét Harpa     

Jólin koma...

með öllu sem því tilheyrir.  Aðventan hófst 10. desember hjá okkur þegar ég var búin í prófum og nú er ég á fullu að þrífa, baka og jólast almennt - alltaf jafn gaman.  Kolfinna Sjöfn er að vanda í góðum gír, blaðrar á fullu og kann fullt af kúnstum - kannski fær hún vinnu í Sirkus þegar hún verður stór W00t  aldrei að vita.  Ég skrapp í jólaferð til Frankfurt í lok nóvember og er ég kom heim örlaði aðeins á mömmusýki hjá skvísunni, en það er nú allt að jafna sig núna.  En nóg af bulli í bili, endilega kíkið við í jólaöl og smákökur ef þið eigið leið hér hjá.  Farin að jólast meira, Margrét Harpa og fylgihlutir Tounge

Hér eru svo tvær myndir af skvísunni í sundi (flottar fimleikaæfingar annarri):

Kolfinna Sjöfn Sund 006         Kolfinna Sjöfn Sund 007


Gleðilegan vetur!

Já, á maður ekki að óska gleðilegs vetrar eins og gleðilegs sumars?  Það finnst mér alla vegana.  Allt fínt að frétta af okkur.  Kolfinna Sjöfn stækkar og dafnar eins og vera ber og er alltaf að koma með ný orð og nýjar athafnir.  Núna er rosa sport að klæða bangsana í einhver föt og gefa þeim að drekka og borða og getur skvísan dundað sér heilmikið við það.  Við gerðum slátur með ömmu Sjöfn og einnig hjálpuðum við ömmu Systu við vambasaum, um að gera að byrja sem fyrst að vasast í þessu gumsi Wink  Kolfinna Sjöfn kláraði annað sundnámskeiðið nú í lok október og er orðin mjög klár í að kafa og synda.  Einnig finnst henni mjög gaman að vafra um í búningsklefanum að loknum sundtíma, hálfnaktri móður hennar til mikillar gremju GetLost, stundum væri betra að daman væri svolítið feimin.  Skvísan er komin með eigin dótaherbergi en sefur þó enn í herberginu hjá foreldrunum, algjör óþarfi að færa sig strax.  Annars er lítið annað fréttnæmt hjá okkur, lífið gengur sinn vanagang og allt í sóma með það.  Endilega kvittið ef þið kíkið hér á þetta bull.  Kveðja, Margrét Harpa, Ómar og Kolfinna Sjöfn


Septembermyndir

Búin að setja inn myndir sem teknar voru í september.  Kolfinna Sjöfn er komin á fulla fart og blaðrar heil ósköp.  Við fórum í tvennar réttir og urðum blaut þar, því aldrei þessu vant rigndi báða dagana (annars búið að vera svo gott veður - eða hitt þó heldur). Cool  Við foreldrarnir erum búin að mála og lagfæra herbergi sem prinsessan á að fá fyrir dótið sitt.  Kolfinna Sjöfn fékk óvænt tvær gerviálftir sem Gvendarnir (Ómar og Gummi) nota á gæsaskytteríi og er hún búin að lofa Gumma dýra (sem á álftirnar) að geyma þær í vetur í herberginu sínu - finnst þær svo ógurlega flottar.  Kissing  Annars er frekar lítið að frétta hér á bæ.  Kveðja, Margrét Harpa og fjölskylda. 


Næsta síða »

Höfundur

Margrét Harpa Guðsteinsdóttir
Margrét Harpa Guðsteinsdóttir
Nóv. 2024
S M Þ M F F L
          1 2
3 4 5 6 7 8 9
10 11 12 13 14 15 16
17 18 19 20 21 22 23
24 25 26 27 28 29 30

Heimsóknir

Flettingar

  • Í dag (21.11.): 0
  • Sl. sólarhring:
  • Sl. viku:
  • Frá upphafi: 0

Annað

  • Innlit í dag: 0
  • Innlit sl. viku:
  • Gestir í dag: 0
  • IP-tölur í dag: 0

Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband